Richard Branson sem þjónandi leiðtogi. Grein eftir Heiðar Inga Svansson (birt í Viðskiptablaðinu 16.5.2013)

Gerðu gott, njóttu og peningarnir koma til þín

Frá mótunarárum mínum sem pönkara þegar bresku pörupiltarnir í Sex Pistols voru efsta stig alls þess sem svalt var, á ég margar góðar minningar. Þar voru m.a. um borð Sid Vicious,sem skipti ekki máli hvort var lífs eða liðinn. Hann var hvort sem er sá svalasti og ímynd hins eina sanna pönkara. Og söngvarinn sem kunni ekki að syngja, Johnny Rotten. Svo mikill frontmaður, hugsuður og leiðtogi að maður hefði valið hann sem mesta hugsuð heimsins, ef einhver hefði spurt. Í dag þarf ekki að fara mörgum orðum um meðlimi þessarar hljómsveitar.

En ég minnist oft þess sem Einar Örn Benediktsson sagði eitt sinn í viðtali að mestu vonbrigði lífs síns hefðu verið að hitta loksins átrúnaðargoð sitt, Johnny Rotten.Hann væri lítt eftirminnilegur karakter og hefði fátt til málanna að leggja.

En mitt í þessum suðupotti pönksins tók ég fyrst eftir manni sem einhvernveginn tók sér stöðu fyrir utan hringiðuna og alla vitleysuna, en stóð einhvernveginn samt í henni miðri. Man vel eftir því þegar hann gerði útgáfusamning við Sex Pistols eftir að tvö stór útgáfufyrirtæki höfðu rekið þá fyrir fyllerí, almenn dólgslæti eða bara fyrir að vera óalandi og óferjandi í alla staði. Richard Branson, heitir þessi kviki, rauðbirkni, snaggaralegi ofurhugi sem þá hafði nýlega stofnað útgáfufyrirtækið Virgin.

Nafnið á fyrirtækinu var tilkomið vegna þess að þeir kunnu ekkert til verka þegar fyrirtækið var stofnað. Ég minnist fréttamyndar sem tekin var þegar Branson blés til blaðamannafundar þegar skrifað var undir útgáfusamninginn við hljómsveitina, þann þriðja á tiltölulega skömmum tíma. Branson brosti allan hringinn á meðan hinir virtust andlega fjarverandi.

En ólíkt stórfyrirtækjunum EMI og A&M sem gáfust upp á þessum stjórnlausu pörupiltum þá var það Branson sem gaf út plötu þeirra og eina af áhrifamestu plötum rokksögunnar, Never Mind the Bollocks.

Honum tókst það sem öðrum hafði ekki tekist, að temja þessar ótemjur. Og þrátt fyrir að það hafi ekki verið markmið í sjálfu sér í byrjun þá græddi hann alveg fullt af peningumá þessu.

Frumlegur og lesblindur 

Sir Richard Charles Nicholas Branson er fæddur 18. júlí árið 1950 í Surrey á Englandi og er því í dag 63ja ára. Skólaganga hans var erfið meðal annars vegna lesblindu og um 13 ára aldur munaði minnstu að hann næði ekki prófum. Branson var mjög feiminn og hlédrægur sem barn. Foreldrar hans höfðu mikil áhrif á hann í æsku og því til staðfestingar eru orð hans sjálfs þegar hann segir í ævisögu sinni að foreldrar hans hafi alið hann upp í þeirri trú að hann gæti breytt heiminum. Þó er það sérstaklega móðir hans sem er honum sterk fyrirmynd, enda getur hann hennar oft, bæði í bókum sínum og í viðtölum. Hún lagði mikla áherslu á að rækta frumkvæði hans, áræðni og frumleika. Í því skyni þá lét hún hann m.a. út úr bílnum nokkrum mílum frá heimili þeirra og sagði honum að komast heim af sjálfsdáðum. Hann var þá 4ja ára.

Bóknám átti illa við Branson vegna lesblindunnar og hann trúði því að hann myndi standa sig betur og komast lengra með því að fara sínar eigin leiðir í hinum stóra heimi. Af þeirri ástæðu ákvað hann að hætta í skóla aðeins 16 ára gamall.

Viðskiptasaga hans síðan þá er með hreinum ólíkindum. Frá því að gefa út tímaritið Student aðeins 15 ára og enn í skóla til þess að vera í dag forstjóri og aðaleigandi yfir risa fyrirtækjasamsteypunni Virgin Group sem er alþjóðlegt fyrirtæki í einkaeigu og starfar í mörgum ólíkum atvinnugreinum í 34 löndum um alla veröld. Í dag starfa hjá samstæðunni 50.000 manns og var velta ársins 2011 um 2.700 milljarðar króna. Branson er nítjándi í röðinni á lista Sunday Times yfir ríkustu Bretana með nettó eign samtals að virði tæplega 700 milljarða króna. Þá er Branson númer 272 á lista Forbes yfir efnuðustu einstaklinga í heimi með nettó eignir metnar á 533 milljarðakróna.

Ekki langskólagenginn

Branson er ekki langskólagenginn og það má leiða líkum að því að hann fylgi ekki vísvitandi skilgreindri leiðtogakenningu. En hann hefur sérstakan og árangursríkan leiðtogastíl og það virðist honum í lófa lagið að byggja upp fyrirtæki sem blómstra og dafna. Hann er harðduglegur og hefur óbilandi trú á fólki. Hann hefur skýra hugsjón og lífsgildi sem eru hvatinn að verkum hans, aðgerðum og hugmyndum. Sjálfur segir hann að hann hafi ekki farið út í viðskipti til að græða peninga og m.a. hafi hvatinn að fyrsta fyrirtækinu hans, tímaritinu Student, verið sá að hann langaði að prufa að ritstýra tímariti. „Aldrei hafa það eitt að markmiði að græða peninga. Árangur næst aldrei til lengri tíma ef hagnaður er markmið í sjálfu sér“. Þá segir hann: „Lífsgleði er kjarninn í því hvernig ég stunda viðskipti. Það hefur verið lykillinn að öllu frá upphafi. Ég sé enga ástæðu til að breyta því.“ Það er því ekki hagnaðarvonin sem er hvatinn að verkum hans heldur lífsgleðin. „Gerðu gott, njóttu og peningarnir koma til þín“, fullyrðir Branson. Hann hefur tileinkað sér annað veigamikið gildi í lífinu sem er að láta gott af sér leiða og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Branson gefur mikið af sér og trúir því að góðverk fyrir samfélagið hafi jákvæðar afleiðingar á viðskiptin.

Í viðtölum talar Branson ítrekað um fólkið, hann talar um mannauðinn sem hans dýrmætustu auðlind. Haft er eftir honum að starfsfólkið sé mikilvægast, svo komi viðskiptavinurinn og í þriðja sæti hluthafinn. Hann hefur skapað vinalegt andrúmsloft í fyrirtækjum sínum þar sem er ekki er hefðbundinn valdapíramídi. Hann trúir því að þegar starfsmönnum líði vel og hafi gaman af því sem þeir gera þá skili þeir sínu besta framlagi. Hann vill að fólk sé skapandi og sýni frumkvæði og hann gefur fólki frelsi til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri, framkvæma þær og eiga þannig möguleika á því að blómstra í starfi.

Þjónandi leiðtogi

Samkvæmt ofansögðu þá fellur Branson vel að því að vera þjónandi leiðtogi. En Robert Greenleaf kynnti til sögunnar þjónandi forystu kringum árið 1970 sem fjallar um viðhorf og hegðun leiðtogans. Þjónandi leiðtogi setur fylgjendur í fyrsta sæti, hann er heiðarlegur við þá og kemur fram af sanngirni. Hann hlustar og þróar langvarandi samskipti við fylgjendur. Þjónandi leiðtogar hafa tilhneigingu til að forgangsraða með eftirfarandi hætti: „Fylgjendur fyrst, skipulagsheildin svo og eigin þarfir síðast“.

Þessi áhersla samræmist áherslum Bransons, því eins og fram kemur hér að framan setur hann starfsmenn sína ávallt í fyrsta sæti. Miðað við mann í stöðu Bransons, með öll þessi umsvif og auðæfi þá er merkilegt að þrátt fyrir ítrekaða leit er mjög erfitt að finna gagnrýni eða neikvæða umfjöllun um hann sjálfan eða viðskiptahætti hans. Það hlýtur að vera sérstakt að erfitt sé að finna eitthvað neikvætt m.a. frá fyrrverandi starfsmanni eða óánægðum samkeppnisaðila.

Reyndar er til Fésbókarsíðan „I hate Richard Branson“ þar sem 17 aðilar eru meðlimir á meðan það eru 328.035 like á opinberri Fésbókarsíðu hans.

Þjónandi forysta lítur því ekki bara vel út á pappírnum sem hugmyndafræði eða er eingöngu viðeigandi fyrir heilbrigðisstéttir, kennara eða uppalendur. Hún er ekki bara hentug og viðeigandi í mjúku málunum. Þjónandi forysta einkennist einmitt af löngun til að mæta þörfum og óskum þeirra sem við störfum með og störfum fyrir, bæði samstarfsfólks okkar og viðskiptavina.

Þjónandi forysta er líka góður bisness enda er hún notuð í fjölmörgum fyrirtækjum á topplistum Forbes yfir stærstu og verðmætustu fyrirtækin. Eitt af þessum fyrirtækjum er Starbucks sem er í 54. sæti yfir sterkustu vörumerki heims. En þessi tilvitnun er höfð eftir Howard Behar, fyrrverandi forstjóra þess: „If you grow people – people will grow business“.

Höfundur greinarinnar er Heiðar Ingi Svansson framkvæmdastjóri og einn af skipuleggjendum ráðstefnu um þjónandi forystu í Reykjavík, 14. júní sl. Greinin birtist í aðdraganda ráðstefnunnar í Viðskiptablaðinu 16. maí 2013, sjá hér.   

Richard_quote_play_snooker_pool.jpg

Viðskiptasaga Richard Branson er með ólíkindum. Hann kemur víða fram og fjallar um hugmyndir sínar um forystu og stjórnun sem eiga mjög margt sameiginlegt með hugmyndafræði þjónandi forystu, sjá t.d. hér: http://www.virgin.com/richard-branson/the-future-of-leadership

Sjá einnig nánar um hugmyndafræði þjónandi forystu hér á heimasíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu (Greenleaf Iceland, www.greenleaf.is) og á heimasíðu Greenleaf samtakanna í Bandaríkjunum www.greenleaf.org

LAuf-Saman