Sú hugsun er lífseig að styrkur leiðtogans felist í getu hans til að fá starfsfólk til að gera það sem hann vill. Í besta falli sjáum við fyrir okkur snjalla leiðtoga sem finna hárréttu orðin og flytja eldræður sem kveikja eldmóð í brjósti starfsfólks svo það einhendir sér í verkefnin af krafti. Oftar en ekki er það hlutverk leiðtogans að finna eða kunna réttu leiðirnar og segja hinum hvað skuli gera. Þegar illa árar er hert á þessu hlutverki, völd forstjórans aukin og staða hans sem yfirmanns látin tala.
En hvaða gagn er þá af leiðtoga sem tekur fólk tali undir fjögur augu, leitar eftir skoðunum þess og ætlast til þess að það komist að niðurstöðu sjálft? Er hann þá ekki áhrifalaus og er hann í raun yfirmaður eða leiðtogi?
Sannfæring, eins og Greenleaf lýsir henni, er ekki bara samskiptaaðferð, ekki bara leið til að tala við fólk. Sannfæring er leið til að tjá virðingu og traust. Sá sem kallar í einlægni eftir skoðunum fólks og hlustar raunverulega á það sem það hefur til málanna að leggja, frekar en að segja því í krafti stöðu sinnar hvað skuli gert og hvernig, sýnir fólki að hann treysti því og virðir. Fólki líður vel þegar því er treyst og hallast frekar að þeim sem sýna þeim virðingu. Í því felst áhrifamáttur sannfæringar og í henni felst áhrifamáttur hins þjónandi leiðtoga. Slík áhrif eru til langtíma.
Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014.