Hinn þjónandi leiðtogi samkvæmt Robert K. Greenleaf

Hugmyndin um þjónandi forystu var kynnt til sögunnar árið 1970 þegar út kom ritgerð Roberts K. Greenleaf um efnið, The Servant as Leader. Í ritgerðinnihélt Greenleaf því fram að aðeins þeir gætu sannarlega orðið merkir leiðtogar sem væru þjónar áður en þeir yrðu leiðtogar (e. servant first). Samkvæmt Greenleaf er vald veitt hinum þjónandi leiðtoga einmitt vegna þess að hann er þjónn. Það er meðvitað val hins þjónandi leiðtoga að taka að sér forystu og hann getur misst hana ef svo ber undir. Þjónustulund hins þjónandi leiðtoga er honum hins vegar eðlislæg og upprunaleg og hann verður ekki sviptur henni. Þannig er hinn þjónandi leiðtogi andstæða þess sem er fyrst og fremst leiðtogi (e. leader first), t.d. vegna valdafíknar eða eftirsóknar eftir efnislegum gæðum. Munurinn á þeim sem er leiðtogi fyrst og þeim sem er þjónn fyrst kemur einna skýrast fram í því að sá síðarnefndi gætir vandlega að því að mikilvægustu þörfum annarra sé sinnt (Greenleaf, 1970/2010). Í ritgerðinni mælti Greenleaf fyrir auknu vægi þjónustu í rekstri stofnana en hann taldi það lykilatriði að hæfir þjónar með leiðtogahæfileika tækju að sér forystu, en fylgdu aðeins þjónandi leiðtogum að málum þar sem það ætti við. Greenleaf lýsti í riti sínu eiginleikum hins þjónandi leiðtoga ástamt því að leggja til hollráð til farsællar forystu (Greenleaf, 1970/2010).

Greenleaf lagði ríka áherslu á hugtakið markmið (e. goal), sem hann skýrði sem „hinn alltumfaðmandi tilgang, hinn stóra draum eða hugsjón, hina æðstu fullkomnun sem maður nálgast en nær aldrei almennilega“ (Greenleaf, 1970/2010). Slíkt markmið eða hugsjón taldi Greenleaf lykilatriði forystu og forsendu afreksverka – lítið gæti gerst án draums og ekkert stórt gæti gerst ef ekki væri til staðar stór draumur (Greenleaf, 1970/2010). Stofnunum farnast betur þegar draumurinn er í fararbroddi og leiðtoginn er þjónn draumsins. Eldmóður verður að vera í huga starfsmanna og stjórnandi skapar hann ekki, heldur draumurinn. Draumurinn er hugsýn sem beinir fólki í rétta átt og gerir því kleift að fullnýta möguleika sína. Stórkostlegur draumur smýgur djúpt í vitund allra þeirra sem aðhyllast hann og hann veitir orku sem vekur fólk af doða svo það horfir vonglatt til framtíðar. Draumurinn skapar yfirsýn yfir það sem unnið er að. Greenleaf taldi skortinn á almennilegum draumi útbreitt vandamál í stofnunum (Greenleaf, 1978).

Greenleaf nefndi ýmsa eiginleika og hegðunarmynstur sem einkenndu hinn þjónandi leiðtoga. Leiðtogi þyrfti að kunna að eiga við ófullkomið fólk enda væri fullkomið fólk ekki til. Þess vegna þyrfti hann að sýna skilning eða hluttekningu og taka fólki eins og það er. Þannig vekur leiðtoginn traust fylgjenda sinna og þannig getur hann fremur hjálpað þeim að vaxa í starfi en ella (Greenleaf, 1970/2010). Leiðtogi þyrfti auk þess að hafa almennan skilning og næmi fyrir sjálfum sér og öðrum, vera vel vakandi og sjá heildarmyndina. Ennfremur þyrfti hann að hafa framsýni í þeim skilningi að geta séð fyrir það sem líklega muni gerast. Leiðtogi ætti að reyna að sjá fyrir ókomnar afleiðingar þegar færi gefst til að taka frumkvæði og beina fyrirliggjandi máli í réttan farveg. Þennan eiginleika taldi Greenleaf siðferðilegt atriði þar sem siðferðilega vafasamar ákvarðanir gætu verið afleiðingar þess að framsýni hefði ekki verið viðhöfð á fyrra tímamarki. Skortur á framsýni, hvort sem er af getu- eða viljaleysi, væri þannig siðferðisbrestur af hálfu leiðtogans (Greenleaf, 1970/2010).

Þjónandi leiðtogi beitir ekki valdi, heldur kemur hann sínu til leiðar með því að sannfæra samstarfsmenn í heiðarlegu samtali, gjarnan með því einu að varpa fram sjónarmiðum og spurningum á tveggja manna tali og láta viðmælandanum eftir að finna ákjósanlega niðurstöðu á þeim grundvelli (Greenleaf, 1970/2010). Síðar setti Greenleaf (1978) sannfæringarvald í samhengi við hinn „stórkostlega draum“. Samkvæmt því felst sannfæringarvaldið í draumnum sem allir stefna sameiginlega að. Sannfæring sem leið að hafa áhrif á fólk er möguleg vegna hins stórkostlega draums. Hinn þjónandi leiðtogi er mannlegur og stendur nærri almennum starfsmönnum og raunverulegum verkefnum stofnunar sinnar. Fyrir vikið fylgist hann mun betur með og öðlast meira innsæi í starfsemina. Bætt frammistaða hans sem því nemur leiðir aftur til þess að hann þykir áreiðanlegur og nýtur meira trausts, þar á meðal hjá starfsmönnunum sem reiða sig á hann (Greenleaf, 1970/2010).

Heimildir:
Greenleaf, R. K. (1970/2010). The Servant as Leader. Westfield: The Greenleaf Center for Servant Leadership.
Greenleaf, R. K. (1978). The Leadership Crisis. A message for College and University Faculty. Westfield: The Greenleaf Center for Servant Leadership.

Höfundur greinar: Guðjón Ingi Guðjónsson