Menningarleg fjölbreytni og menningarleg sjálfsmynd

Hinn þjónandi leiðtogi og menningarleg fjölbreytni
Meðal helstu einkenna þjónandi leiðtoga er opnar viðtökur (e. interpersonal acceptance) (van Dierendonck og Nuijten, 2011). Í þeim felst m.a. getan til að setja sig í spor annarra. Hinum þjónandi leiðtoga er annt um að skapa andrúmsloft þar sem ríkir traust, fólki finnst það velkomið og finnst það njóta viðurkenningar. Hinn þjónandi leiðtogi þrífst ekki í einsleitni. Hann fagnar nýjum og ólíkum skoðunum, ekki síst þeim sem eru ólíkar hans eigin skoðunum (McGee-Cooper og Trammell, 2009) og er ávallt reiðubúinn að hlusta á skoðanir annarra (Sigrún Gunnardsóttir, 2011). Í þá tíð er Robert K. Greenleaf, upphafsmaður þjónandi forystu, var í forsvari fyrir rekstrarþróunarmál hjá AT&T  um miðja síðustu öld stóð hann fyrir margvíslegum nýjungum, m.a. til að víkka sjóndeildarhring samstarfsfólks síns. Greenleaf gerði hugvísindi að föstum lið í stjórnendaþjálfun og réði kvenfólk og blökkumenn í ábyrgðastöður sem var algjörlega fáheyrt í vestrænum stórfyrirtækjum á þeim tíma.1

Alþjóðasamfélagið og menningarleg fjölbreytni
Flestir gera sér eflaust grein fyrir því hversu miklu máli sjálfsmyndin skiptir hvern einstakling, fyrir sjálfsvirðinguna og andlega líðan hans en einnig sjálfsfremd og upplitsdirfsku og þar með möguleika einstaklingsins í lífinu. Margir þættir geta haft áhrif á sjálfsmynd fólks enda er talað um ýmsar tegundir sjálfsmyndar, þ. á m. einstaklingskennd (e. individuality), félagslega sjálfsmynd (e. social identity) og menningarlega sjálfsmynd (e. cultural identity). Sú síðastnefnda hefur fengið töluverða athygli, m.a. í mannréttindastarfi Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Ísland hefur, ásamt 161 ríki heims til viðbótar, fullgilt alþjóðasamning SÞ um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi en í honum segir einmitt til um skuldbindingar íslenska ríkisins varðandi menningarlega sjálfsmynd og menningarlega fjölbreytni.2 Í ákvæðinu felst réttur hvers og eins til að ráða menningarlegri sjálfsmynd sinni og réttur hvers menningarhóps til að viðhalda sinni eigin afmörkuðu menningu og þróa hana. Auk þess felst í ákvæðinu rétturinn til að ástunda þá menningu og það menningarstarf sem hver og einn vill og til þeirra lífshátta sem tilheyra þeirri menningu.

Í yfirlýsingu UNESCO um menningarlega fjölbreytni3 segir að menningarleg fjölbreytni sé eins nauðsynleg mannkyninu og líffræðileg fjölbreytni náttúrunni. Í samningi UNESCO um að vernda og styðja við fjölreytileg menningarleg tjáningarform4 segir að menningarleg fjölbreytni sé sameiginleg arfleifð mannkyns og ómissandi fyrir frið og öryggi. Skuli ríki því kappkosta að skapa aðstæður á yfirráðasvæðum sínum sem vernda og styðja við fjölbreytta menningarlega tjáningu. Samkvæmt nefnd SÞ um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi er vernd menningarlegrar fjölbreytni siðferðilegt forgangsatriði og óaðskiljanlegt virðingu við mannlega reisn. Nefndin bendir á að ein helstu verðmæti sem felist í menningu sé hinn gefandi menningarlegi samhugur sem myndist þar sem ólíkir hópar, minnihlutahópar og samfélög geta óheft deilt sama landsvæði. Menning minnihlutahópa sé ómissandi hluti sjálfsmyndar ríkisins sjálfs og þess vegna beri aðildarríkjum fyrrnefnds samnings (þ.á m. Íslandi) skylda til að vernda minnihlutamenningu. Gildi „ríkismenningar“ felst samkvæmt þessu í margbreytni hennar, í því að margir ólíkir menningar­hópar fyrirfinnist innan landamæra ríkisins.

Þurfum við að umbera það sem er öðruvísi?
Eins og kemur fram í mannréttindastarfi Sameinuðu þjóðanna er menningarleg fjölbreytni undirstaða mannlegrar reisnar og felast ómetanleg verðmæti í því þegar ólíkir hópar deila frjálst sama svæði. Einsleitni og þröngsýni er hvorki einstaklingum né samfélögum hollt, fækkar möguleikum og blindar sýn á mismunandi leiðir til að efla og bæta sjálfan sig og samfélagið. Hinn þjónandi leiðtogi leitar eftir fjölbreytni og nýjum hugmyndum, er mildur og fyrirgefandi í samskiptum og tekur fólki opnum örmum. Við þurfum því ekki að þola fjölbreytni eða umbera, heldur styðjum allt sem auðgar tilveruna og fáum notið fjölbreytninnar, bæði sem einstaklingar og sem samfélag.

 

Heimildavísanir:
1) https://greenleaf.org/about-us/about-robert-k-greenleaf/
2) A-liður 1. mgr. 15. gr. samningsins og umfjöllun nefndarinnar um efnhagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þessi umfjöllun byggir á meistararannsókn Guðjóns Inga Guðjónssonar (2012) um réttinn til þátttöku í menningarlífi við lagadeild Háskóla Íslands.. Gildi og framtmum um leið og hann lætur gildiir fimm grunnhluta sem sj
3) Yfirlýsing UNESCO um menningarlega fjölbreytni (e. Universal Declaration on Cultural Diversity, samþykkt á allsherjarfundi UNESCO árið 2001.
4) Samningur UNESCO um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningar­leg tjáningarform (e. UNESCO Convention on the Protection and Promotion of the Diversity of Cultural Expressions, samþykktur árið 2003.

 

Aðrar heimildir sem vitnað er til:
Ann McGee-Cooper og Duane Trammell (2009): Accountability as Covenant: „The Taproot of Servant Leadership.“ http://amca.com/amca/wp-content/uploads/Accountability-as-Covenant.pdf

Dirk van Dierendonck og Inge Nuijten (2011): „The Servant Leadership Survey: Development and Validation of a Multidimensional Measure.“ Journal of Business and Psychology, 26 (3), 249-267.

Sigrún Gunnarsdóttir (2011), „Þjónandi forysta – fyrri hluti“, Glíman, 8, 245-262.