Þótt Robert K. Greenleaf hafi verið fyrstur til að nota hugtakið ,,Þjónand forysta” (e. Servant Leadership) var hann ekki beinlínis fyrstur til að fjalla um þá forystuhætti sem hugtakið lýsir. Sjálfur leit hann ekki svo á að hann hefði ,,fundið upp” þjónandi forystu. Þjónandi leiðtogar hafa alltaf verið til og Greenleaf vísaði margoft í fyrirmyndir úr bókmenntum og mannkynssögunni langt aftur í aldir. Má þar nefna biblíusögur, 18. aldar kvekarann John Woolman og 19. aldar stjórnmálamanninn og fjölfræðinginn Frederik Grundtvig. Bent hefur verið á líkindi við heimspeki- og stjórnmálafræðihugsun aftur úr miðöldum og fornöld, þar á meðal rit hins kínverska Lao-Tzu frá 6. öld f.Kr., indverska fræðimanninn Chanakya frá 4. öld f. Kr. og trúarrit á borð við Kóraninn.
En Robert K. Greenleaf skapaði ekki aðeins hugtakið “þjónandi forysta”. Skrif hans um forystu og samfélagsmálefni undir formerkjum þjónandi forystu voru það brautryðjandastarf sem skapaði þjónandi forystu sess sem hugmyndafræði og valmöguleika í forystufræðum og gerði komandi kynslóðum fært að ræða saman um fyrirbærið, rannsaka það og tileinka sér. Greenleaf er því rétt nefndur upphafsmaður þjónandi forystu sem hugmyndafræði og samfélagshreyfingar. Ekki er þó síður mikilvæg miðstöðin sem Greenleaf stofnaði árið 1964 utan um hugmyndir sínar í forystu- og samfélagsfræðum, sem upphaflega hét The Center for Applied Ethics en síðar The Greenleaf Center for Servant Leadership. Greenleaf-setrið hefur aðsetur í Westfield í Indiana-ríki og heldur enn í dag úti þróttmikilli starfsemi á sviði útgáfu og ráðgjafar, útvegar framsögumenn og heldur námskeið og ráðstefnur. Greenleaf-setrið á fjórar systur-stofnanir í Bretlandi, Hollandi, Singapúr og á Íslandi.
Undirbúningur að stofnun Greenleaf-setursins á Íslandi byrjaði árið 2006. Félagsskapur áhugafólks um þjónandi forystu var í sambandi við Greenleaf-miðstöðina vestra frá því ári og hefur miðstöðin verið innan handar við skipulag ráðstefna, málþinga og annarra viðburða auk samráðs um rannsóknir. Í júní 2008 sótti félagsskapurinn loks um samstarfssamning við Greenleaf-miðstöðina. Á þeim tíma var Greenleaf-miðstöðin að endurskoða samstarf sitt við systurstofnanir í öðrum löndum og vildi svo til að Greenleaf-setrið á Íslandi varð fyrsta samstarfsstofnun Greenleaf-miðstöðvarinnar samkvæmt nýju fyrirkomulagi. Miðstöðin samþykkti samstarf við félagsskapinn árið 2009 og var samstarfssamningur undirritaður með Kent M. Keith, þáverandi forstöðumanni Greenleaf-miðstöðvarinnar við hátíðlega athöfn í Skálholtskirkju á ráðstefnu félagsins í mars 2010.
Greenleaf-setrið á Íslandi (Greenleaf Iceland) hefur nú átt í farsælu samstarfi við Greenleaf-miðstöðina í Westfield í átta ár og verið í fjölþjóðlegri fjölskyldu Greenleaf-stofnana frá árinu 2009. Greenleaf-setrið á Íslandi sinnir kynningu á þjónandi forystu og rannsóknum á hugmyndafræðinni og áhrifum hennar og er stoltur þátttakandi í þeirri starfsemi sem Robert K. Greenleaf kom á laggirnar og byggir á arfleifð hans.
Hér eru nokkrar myndir frá starfi Þekkingarseturs um þjónandi forystu, Greenleaf Center Iceland.