Robert Greenleaf segir frá því að hugmyndir hans um þjónandi forystu hafi mótast allt frá því að hann var ungur maður. Auk fyrirmyndar hjá föður sínum sem var öflugur leiðtogi í heimabæ þeirra telur Greenleaf að áratugalöng reynsla hans við rannsóknir og ráðgjöf í fjölmennu fyrirtæki hafi mótað mjög hugmyndir hans. Sömuleiðs höfðu ýmsir höfundar djúp áhrif á mótun hugmynda Greenleaf, t.d. Elwyn Brooks White, einkum það sem White skrifar um gildi þess að sjá hlutina í heild sinni (seeing things whole). Síðast en ekki síst hafði bók Hermann Hesse, Journey to the East, um þjóninn Leó djúpstæð áhrif á mótun hugmyndar Greenleaf um þjónandi forystu (Greenleaf, 1995, bls. 17 – 20).
Saga Hesse um Leó segir frá pílagrímum á langri vegferð til austurlanda og hvernig þeir tókust á við ýmsa erfiðleika með hjálp Leo sem var þjónn þeirra. Leó mætti veraldlegum þörfum pílagrímanna um leið og hann uppörvaði þá og gladdi með anda sínum og söng. Þegar Leó verður viðskila við hópinn byrjar þeim að miða illa og heldur svo fram þar til Leó slæst aftur í för með þeim. Við endurkomu Leó uppgötva pílagrímarnir að Leó var ekki einungis þjónn þeirra heldur var Leó í raun einnig leiðtogi þeirra.
Hið raunverulega hlutverk þjónsins var tvíþætt, að þjóna og veita hópnum forystu. Leó var fyrst og fremst þjónn, löngun hans og vilji til þjónustu við pílagrímana var raunveruleg og sönn. Með þjónustu sinni mætti Leó mikilvægustu þörfum pílagrímanna og sú þjónusta gerði Leó jafnframt að leiðtoga fólksins sem hann þjónaði. Sagan um Leó sannfærði Greenleaf um að hinn sanni og mikli leiðtogi er í fyrsta lagi þjónn. Leó var hinn góði leiðtogi og innra með honum bjó löngunin til að þjóna. Þessi einlæga ósk, vilji og hæfileikar gerði þjóninn að öruggum og farsælum leiðtoga. Þjónusta var Leó eðlislæg og raunveruleg (Greenleaf, 2008, bls. 9).