Einar Svansson, lektor við Háskólann á Bifröst mun fjalla um Skipulag og þjónandi forysta á ráðstefnuninni á Bifröst 25. september 2015. Einar hefur langa reynslu af rannsóknum og kennslu um skipulag fyrirtækja, stofnana og félaga og mun nú tengja fræðin og hagnýta reynslu við þjónandi forystu. Einar lýsir inntaki erindis síns með þessum orðum:
Skipulag verður fyrst skoðað stuttlega í sögulegu samhengi, hefðbundnar kenningar um ábyrgð og vald sem byggjast á framleiðsluiðnaði allt frá Iðnbyltingu til bandarískra stórfyrirtækja á 20. öldinni. Vald var staðsett efst í bröttum pýramída og æðstu stjórnendur nánast einráðir og gáfu fyrirskipanir að ofan. Því næst verða reifaðar birtingarmyndir skipulags sem komið hafa fram á síðustu áratugum, allt frá Morgan til Mintzberg. Sérstök áhersla verður síðan á fyrirtæki sem komu fram með nýjungar í átt til aukinnar valddreifingar og teymisvinnu. Reifuð sagan af Jan Carlsson forstjóra SAS frá 1981-1994 sem snéri pýramídanum á hvolf; talað um Ricardo Semler og tilraunir hans með iðnaðarlýðræði í brasilíska fyrirtækinu Semco 1988-2004. Í lokin verður fjallað um ný fyrirtæki sem byggja á starfsmannalýðræði og heildarstjórnun (e. holocracy) annarsvegar bandaríska fyrirtækið Zappos og hið íslenska Kolibri. INNFORM, ný rannsókn á skipulagi 280 stærstu íslensku fyrirtækjanna verður kynnt stuttlega og tengd umræðu um sögulega þróun og raundæmi. Hugleiðingar í lokin verða með áherslu á þjónandi forystu og staðsetningu og gildi hennar varðandi nútímalegt skipulag.
Hér er stutt grein um þjónandi forystu og nýjar hugmyndir um skipulag.
Upptaka á erindi Einars Svanssonar á ráðstefnunni á Bifröst 25. september 2015:
Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 25. september 2015
Sjötta ráðstefnan um þjónandi forystu verður haldin á Háskólanum á Bifröst föstudaginn 25. september 2015 kl. 10 – 15:30. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Þjónandi forysta og brautryðjendur.
Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar og þátttakendur leita svara við spurningunni: ,,Hvernig getur þjónandi forysta verið drifkraftur brautryðjandans?”.