Að sýna ákveðna umhyggju og aga í verki. Helgi Hrafn Halldórsson um meistaranámið í þjónandi forystu

Helgi Hrafn Halldórsson er með BSc í tölvunarfræði frá Háskólanum á Akureyri 2006 og byrjaði í meistaranámi í þjónandi forystu haustið 2019. Hann valdi námið til að efla sig sem leiðtoga og finnst þjónandi forysta eiga vel við starfsumhverfi hans sem stjórnandi og ráðgjafi í viðskiptagreind hjá fyrirtækinu Expectus. Vinur hans hafði mælt með náminu á Bifröst og Helga fannst fjarnámið þar vera góður kostur. Þegar Helgi sá að boðið var upp á sérstaka námslínu um þjónandi forystu fannst honum það vera spennandi og skemmtilegt að tengja við hugtakið vegna reynslu sinnar sem stjórnandi og að starfa sem þjónn: ,,Á mínum yngri árum starfaði ég sem þjónn en í dag er ég stjórnandi. Þannig þetta var aldrei spurning” segir Helgi og brosir og finnst skemmtilegt að pæla í hvernig þessi tvö hugtök vinna saman ,,þjónn og leiðtogi”

Maður þarf að sýna ákveðna umhyggju og sýna aga í verki

Helgi segir að námið á Bifröst hafi verið áhugavert og nýst vel: ,,Námið hefur nýst mér í leik og starfi. Þjónandi forysta leggur áherslur á einlægan áhuga á öðrum og það getur maður heimfært í næstum hvaða kringumstæður sem er. Ég hef notað margt af mínum lærdómi í hvaða hlutverki sem er, faðir, stjórnandi, eða ráðgjafi. Til að mynda með opnum samskiptum, virkri hlustun og ástríkum aga. Sérstaklega segir Helgi áhugavert að vinna með samspil þjónustu og forystu sem hefur verið líkt við ástríkan aga þar sem teflt er saman mildi og festu, sveigjanleika og ákveðni: ,,Það sem mér hefur fundist skemmtilegast í náminu um þjónandi forystu er samspilið sem myndast með ástríkum aga. Maður þarf að sýna ákveðna umhyggju til fólksins sem maður er í kringum. Hvort heldur sem það er fjölskylda, samstarfsfólk eða viðskiptavinir. Maður þarf að vera þessi opna týpa og stuðla að opnum samskiptum. En að sama skapi standa fastur á sínu og sýna aga í verki sem einstaklingur í forystu og sýna umhyggju fyrir fólkinu sem í kringum mann.”

Það hefur líka verið áhugavert að lesa um árangur þjónandi forystu

Árangur þjónandi forystu hefur líka vakið athygli Helga og hversu vel samspil umhyggju og ábyrgðarskyldu hentar til að mæta þörfum mismunandi hópa sem eru á vinnumarkaði til dæmis þekkingarstarfsmanna og nýrrar kynslóðar: ,,Það hefur líka verið áhugavert að lesa um árangur þjónandi forystu innan þekkingarstarfa og mismunandi kynslóða. Þá sérstaklega þegar kemur að tilgangi, hollustu og vellíðan í starfi innan upplýsingatækni og hjá þúsaldarkynslóðinni. Nokkuð sem væri áhugavert að heimfæra á íslenskar aðstæður og skoða þá í leiðinni samband ábyrgðaskyldu og sjálfstæði við þjónandi forystu.”

Fjarnámið hentar mér alveg fullkomlega

Helgi er fjölskyldumaður og segir að fjarnámið á Bifröst henti mjög vel fyrir þá sem eru í starfi og líka með fjölskyldu: ,,Fjarnámið hentar mér alveg fullkomlega. Sjálfur er ég í fullu starfi og með fjögurra manna fjölskyldu þannig það kom aldrei til greina að setjast á skóla bekk í margar klukkustundir í viku. Það að maður getur sinnt náminu á þeim tíma sem hentar manni er alveg fullkomið.”

Viðtal við Helga Hrafn Halldórsson um meistaranám í þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst býður upp meistaranám í Forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu. Námið er tveggja ár nám og getur lokið með MS gráðu sem felur í sér meistararitgerð eða MLM gráðu þar sem tekin eru fleiri námskeið og ekki skrifuð lokaritgerð. Námið er skipulagt í samvinnu við Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Umsjónarkennari er Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við skólann. Umsóknarfrestur fyrir næsta skólaár er til 20. maí 2020. Nánari upplýsingar um námið og umsóknir eru hér.