Þjónandi forysta og sýn ungleiðtoga í æskulýðsstarfi
 – Erindi Auðar Pálsdóttur á ráðstefnunni á Bifröst 31. október 2014

Auður Pálsdóttir mun fjalla um rannsókn sína um þjónandi forystu og sýn ungleiðtoga í æskulýðsstarfi
 á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk.  Yfirskrift ráðstefnnnar er Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Erindi Auðar er lýst með eftirfarandi orðum: 

Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem byggir á samfélagslegri ábyrgð. Í henni felst löngun fólks til að mæta þörfum og óskum samferðafólksins sem birtist í umhyggju og athöfnum við að láta gott af sér leiða. Þjónusta leiðtoganna felst í forystunni sem beinist að því auka velferð og þátttöku þeirra sem leiðtoginn vinnur með. Í æskulýðsstarfi fjögurra af fjölmennustu æskulýðshreyfingum landsins er byggt á þessari sýn þjónandi forystu þar sem sjálfboðaliðum í leiðtogahlutverkum er gefið færi á að sýna frumkvæði og hafa áhrif á mótun og þróun eigin verkefna. Í þessu erindi er sjónum beint að ungleiðtogum og forystuhlutverki leiðtoga þeirra í æskulýðsstarfi hjá Skátum, Ungmennafélagi Íslands, KFUM og KFUK og Landsbjörgu. Tekin voru rýnihópaviðtöl við ungmenni í hverjum æskulýðssamtökum fyrir sig. Ungmennin voru spurð hvert þeim fyndist hlutverk leiðtoga í æskulýðsstarfi ætti að vera og hvert hlutverk leiðtoga ungleiðtoganna ætti að vera. Svör þeirra voru skoðuð með hliðsjón af hugmyndum um þjónandi forystu. Niðurstöður leiddu meðal annars í ljós að ungmenni sem vilja verða leiðtogar og taka að sér forystuhlutverk vilja skýra leiðsögn og virðast frekar taka mark á því sem forystufólk gerir en því sem það segir

Auður Pálsdóttir er lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Ráðstefna um þjónandi forystu á vegum Háskólans á Bifröst og Þekkingarseturs um þjónandi forystu 31. október 2014 frá kl. 10 til kl. 16. Skráning er hér á heimasíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu.

Auður Pálsdóttir
Auður Pálsdóttir