Þjónandi forysta í upplýsingatæknifyrirtækjum og í Háskóla Íslands. Tvær MS ritgerðir 2012

Tvær nýjar MS rannsóknir frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands um þjónandi forystu.

Sólveig Reynisdóttir hefur lokið MS ritgerð í mannauðsstjórnun: Áhrif stjórnunarhátta á líðan þjónustustarfsmanna í upplýsingatæknifyrirtækjum. Rannsókn á þjónandi forystu.

Guðjón Ingi Guðjónsson hefur lokið MS ritgerð í stjórnun og stefnumótun: Þjónandi forysta og starfsánægja á fræðasviðum Háskóla Íslands

Rannsóknir Sólveigar og Guðjóns Inga eru liður í rannsóknarsamstarfi Þekkingarseturs um þjónandi forystu hér landi í samvinnu við Dr. Dirk van Dierendonck við Erasmusháskólann í Hollandi og notað mælitækið Servant Leadership Survey sem mælir vægi þjónandi forystu. Leiðbeinandi Sólveigar og Guðjóns Inga var Dr. Sigrún Gunnarsdóttir og luku þau bæði prófi fá Viðskiptadeild Háskóla Íslands í febrúar 2012.

Ritgerð Sólveigar fjallar um rannsókn um þjónandi forysta innan upplýsingatæknifyrirtækja á Íslandi og um líðan þjónustustarfsmanna þessara fyrirtækja. Rannsóknin sem náði til 94 þjónustustarfsmanna upplýsingatæknifyrirtækja leiddi í ljós að heildarmeðaltal þjónandi forystu reyndist vera 4,46 á skala frá einum uppí sex. Líðan í starfi virtist almennt góð en um 82% þátttakenda voru ánægðir eða mjög ánægðir í starfi og um 76% sýndu engin, lítil eða miðlungseinkenni um tilfinningalega örmögnun í starfi. Þegar tengsl þjónandi forystu við líðan í starfi voru skoðuð kom í ljós að marktæk tengsl voru bæði milli þjónandi forystu og mikillar starfsánægju og milli þjónandi forystu og lítillar tilfinningalegrar örmögnunar. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um að þjónandi forysta hafi jákvæð áhrif á starfsfólk og líðan þeirra í starfi.

Ritgerð Sólveigar er aðgengileg á skemman.is

Ritgerð Guðjóns Inga fjallar um rannsókn sem gerð var meðal starfsfólks fræðasviða Háskóla Íslands. Niðurstöður sýna að vægi þjónandi forystu er nokkuð hátt á fræðasviðum Háskóla Íslands, en töluvert svigrúm sé þó til að auka það. Sterkasti þátturinn var ráðsmennska, en að henni slepptri voru fyrirgefning, styrking og ábyrgð talsvert hærri en aðrir þættir. Hugrekki var lakasti þátturinn á fræðasviðunum. Starfsánægja var í heild dágóð. Engu að síður reyndist stór hluti starfsmanna fræðasviðanna óánægður í starfi. Jákvætt marktækt samband fannst milli þjónandi forystu og starfsánægju þegar allir þættir mælitækisins voru lagðir saman. Tveir einstakir þættir mælitækisins reyndust hafa marktæk tengsl við starfsánægju, þ.e. styrking og hugrekki. Í ljósi niðurstaðna var talið að ástæða væri til að auka veg þjónandi forystu, m.a. í þeim tilgangi að auka starfsánægju.

Ritgerð Guðjóns Inga er aðgengileg á skemman.is