Auðmýkt skapar traust, sanngirni og árangur

 

Hvað er auðmýkt?

Höfundar bókarinnar Start with Humility (Comer og Hayes, 2011)  telja til ellefu hegðunareinkenni auðmýktar, einkenni sem tjá auðmýkt og eru þess valdandi að aðrir telja viðkomandi auðmjúka(n). Hinn auðmjúki leiðtogi:

  1. viðurkennir mistök og vanþekkingu
  2. ástundar góð samskipti á öllum þrepum fyrirtækis
  3. temur sér gagnsæ vinnubrögð
  4. sýnir samkennd
  5. hefur húmor fyrir sjálfum sér
  6. er heiðarlegur
  7. er ekki í vörn
  8. er tiltæk(ur), auðvelt að nálgast hann
  9. ástundar virka hlustun
  10. hvetur til þátttöku
  11. virðir framlag annarra, bæði á formlegan og óformlegan hátt

Hvaða gagn er af auðmýkt?

Auðmjúkir leiðtogar ná árangri, þeir njóta virðingar og trausts og fólk fylgir þeim að málum. Auðmýkt er mikilvæg vegna þess að hún vekur traust sem er farsælli forystu nauðsynlegt. Athyglisvert er að skoða uppruna samsvarandi orðs í ensku – humility, orðið er leitt af orðinu humus sem merkir einfaldlega „jörð“ eða „jarðvegur“. Auðmýkt felst þannig í því að hafa vera nálægt jörðinni, nálægt fólki, nálægt því sem raunverulega skiptir máli – hafa báða fætur á jörðinni.

Hvað er auðmýkt ekki?

Auðmýkt er ekki veiklyndi og auðmýkt er ekki skortur á sjálfstrausti eða sjálfsáliti. Sjálfsöruggum leiðtogum líður vel í eigin skinni vegna auðmýktar sinnar. Þeir þurfa ekki að sanna sig með því að berja sér á brjóst eða láta bera á ágæti sínu:

  1. Auðmýkt er ekki óöryggi, heldur sjálfsöruggi til að geta viðurkennt mistök, frekar en að kenna öðrum um.
  2. Auðmýkt er ekki að láta ekki til sín taka eða í sér heyra. Auðmjúkir leiðtogar láta til sín taka, en gera það á viðeigandi hátt.
  3. Auðmýkt er ekki metnaðarleysi því auðmjúkir leiðtogar hafa metnað fyrir því starfi sem þeir veita forystu.

Hvers vegna njóta auðmjúkir leiðtogar trausts?

  • Auðmjúkir leiðtogar hafa einlægan áhuga á öðru fólki og spyrja samstarfsmenn því frekar um skoðanir þeirra og hagi.
  • Þeir gefa með hegðun sinni skýrt til kynna að þeim standi ekki á sama um annað fólk.
  • Auðmýkt getur af sér sanngirni og hjálpar leiðtoganum að sjá málin út frá sjónarhorni þeirra sem eru þeim ólíkir.
  • Með sanngirni sýnir leiðtoginn að hann sér hlutina ekki aðeins út frá sínu sjónarhorni.

Þegar leiðtogi setur hag annarra framar sínum líður starfsfólki betur, finnur að hag þeirra sé gætt, finnur að því er treyst og að því sé sýnd virðing. Allt þetta er hvatning til að gefa af sér og leggja sig fram af öllum mætti, að vanda sig og vinna saman. Árangurinn sem af því hlýst eykur traust á leiðtoganum.

Höfundar greinar: Guðjón Ingi Guðjónsson / Sigrún Gunnarsdóttir

 

Start with Humility (Comer og Hayes, 2011)

Start-Humility