Menningarhæfni, barneignarþjónusta og þjónandi forysta – Birna Gerður Jónsdóttir

Birna Gerður Jónsdóttir ljósmóðir og aðstoðardeildarstjóri á fæðingarvakt Landspítala gerði árið 2010 rannsókn til meistaraprófs í hjúkrunarstjórnun við Háskóla Íslands.  Rannsóknin fjallaði um barneignarþjónustu, menningarhæfni og þjónandi forystu undir heitinu: Að eignast barn í nýju landi. Viðhorf og reynsla erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi.

Tilurð rannsóknarinnar tengist því að nýbúum hér á landi hefur fjölgað hratt undanfarin ár og æ fleiri erlendar konur eru í hópi skjólstæðinga barneignarþjónustunnar sem kallar á nýjar áskoranir umönnunaraðila. Fáar rannsóknir liggja yfir um efnið og á þeim tíma sem rannsóknin var gerð höfðu engar rannsóknir verðið gerðar um efnið hér á landi.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt misgóða reynslu erlendra kvenna af barneignarþjónustu og birta vísbendingar um að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til menningarbundinna viðhorfa í umönnun. Menningarhæfni (cultural competence) er hugtak sem lagt er til grundvallar í þessari rannsókn en markmið hennar er að dýpka skilning og þekkingu á menningartengdum viðhorfum, hefðum og væntingum erlendra kvenna til barneignarferlisins og varpa ljósi á reynslu þeirra af barneignarþjónustunni.

Við gerð rannsóknarinnar var notuð etnógrafía sem fól í sér viðtöl við sjö erlendar konur sem fæddu börn sín hér á landi. Gögn voru greind í þrjú meginþemu: 1) Fjölskyldulíf fjarri heimahögum sem vísar til aðstæðna kvennanna sem söknuðu samfélags og tengslanets að heiman. 2) Að eignast barn í nýju landi vísar til aðlögunar kvennanna og viðhorfa til barneignarferlisins sem rímaði vel við almenn viðhorf hér á landi. Sátt var við skipulag barneignarþjónustunnar en vísbendingar um einangrun og depurð eftir fæðingu. 3) Snertifletir samskipta vísar til fjölbreyttra samskipta með og án orða, með eða án túlka og var reynsla hér misgóð.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru í takt við erlendar rannsóknir og sýna almenna ánægju viðmælenda með viðmót fagfólks en gefa vísbendingar um að bæta megi barneignarþjónustuna hvað varðar fræðslu, þjónustu vegna tungumálaerfiðleika og stuðning eftir fæðingu. Samfelld ljósmæðraþjónusta virðist henta þessum hópi vel og mikilvægt að leggja áherslu á styrkingu (empowerment) kvennanna.

Í ályktun rannsóknarinnar segir að þekking heilbrigðisstarfsfólks á viðhorfum og reynslu erlendra kvenna á barneignarferlinu sé mikilvæg til að auka skilning fagfólks á þörfum þeirra og leggja grunn að skipulagi barneignarþjónustu sem hæfir best þörfum þessa minnihlutahóps.

Á ársfundi Landspítalans 25. apríl 2016 var Birna Gerður heiðruð og í umsögn segir m.a. ,,Birna er heiðarleg og góð manneskja sem treystandi er á. Hún hefur tileinkað sér stjórnunarstefnu sem einkennist af þjónandi forystu og sýnir það í verki”.

Birna Gerdur Heidrud LSH 2016
Birna Gerður Jónsdóttir heiðruð á ársfundi LSH 2016.

Ritverk Birnu Gerðar um þjónandi forystu:

Meistararitgerð Birnu Gerðar Jónsdóttur. Að eignast barn í nýju landi. Viðhorf og reynsla erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi, 2010.

Grein Birnu Gerðar Jónsdóttur, Ólafar Ástu Ólafsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttir um rannsókina í Tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu, 2011.

Grein Birnu Gerðar Jónsdóttur, Ólafar Ástu Ólafsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttur um rannsóknina í Tímariti ljósmæðra 2012.

Grein Birnu Gerðar Jónsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttur um þjónandi forystu í Tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu, 2013.

Grein Birnu Gerðar um þjónustuleiðtoga (þjónandi leiðtoga) 2006.

thjonandi-forysta-logo