Fimm þættir sem lýsa auðmjúkum leiðtoga

Auðmjúkum leiðtoga má lýsa með eftirfarandi fimm þáttum:

1) Auðmjúkur leiðtogi er manneskjulegur og skilur að heimurinn snýst ekki um hann. Hann sér sjálfan sig í réttu samhengi. Hann skilur að hugmyndir annarra eru mikilvægar og gefur nýjum skoðunum því gaum, jafnvel þótt þær séu ólíkar skoðunum hans sjálfs. Hinn manneskjulegi leiðtogi hefur skilning á áhyggjum starfsmanna, t.d. þegar breytingar eiga sér stað, og vill að starfsmenn taki þátt í að vinna að breytingum. Comer og Hayes setja þennan eiginleika í samhengi við falsleysi (authenticity), því hinn manneskjulegi leiðtogi kemur til dyranna eins og hann er klæddur og lætur sama yfir sig ganga og aðra.

2) Auðmjúkur leiðtogi er berskjaldaður og skilur að hann er „verk í mótun“, að það sé mögulegt að hann læri sitthvað fleira en hann þegar kann. Hann áttar sig á að hann geti ekki allt, hafi ekki svör við öllu og vill þess vegna heyra í samstarfsfólki sínu þegar þarf að taka ákvarðanir. Annar eiginleiki hins berskjaldaða leiðtoga felst í því hvernig hann tekst á við mistök sín. Hann hvorki afneitar þeim né dvelur við þau. Þess í stað viðurkennir hann mistökin, dregur af þeim lærdóm og heldur svo áfram í rétta átt, tekur ábyrgð á því sem honum ber.

3) Auðmjúkur leiðtogi sér afrek sín í réttu ljósi sem felst í því að sjá sjálfan sig í sama ljósi og aðra og meta sjálfan sig á réttan hátt. Hinn auðmjúki leiðtogi afneitar ekki reynslu sinni og afrekum, enda er gagnlegt að byggja á reynslu sinni og geta rætt hana við samstarfsmenn. Hins vegar getur hinn auðmjúki leiðtogi rætt reynslu sína og afrek án sjálfshóls.

4) Auðmjúkur leiðtogi nær árangri vegna þess að hann nýtur virðingar og trausts. Traust er helsta ástæða þess að fólk leggur meira á sig en að jöfnu er ætlast til (e. discretionary effort). Auðmýkt er ekki það eina sem skiptir máli í fyrir forystu. Fleira kemur til, svo sem framtíðarsýn, starfshæfni, hugrekki, samskiptatækni o.fl. en auðmýkt er mikilvæg vegna þess að hún vekur traust sem er farsælli forystu nauðsynlegt.

5) Auðmjúkir leiðtogar hafa einlægan áhuga á öðru fólki og spyr samstarfsmenn því frekar um skoðanir þeirra og hagi. Hann gefur með hegðun sinni skýrt til kynna að þeim standi ekki á sama um annað fólk. Auðmýkt getur af sér sanngirni og hjálpar leiðtoganum að sjá málin út frá sjónarhorni þeirra sem eru þeim ólíkir. Með sanngirni sýnir leiðtoginn að hann sér hlutina ekki aðeins út frá sínu sjónarhorni. Þegar leiðtogi setur hag annarra framar sínum líður starfsfólki betur, finnur að hag þeirra sé gætt, finnur að því er treyst og að því sé sýnd virðing. Allt þetta er hvatning til að gefa af sér og leggja sig fram af öllum mætti, að vanda sig og vinna saman. Árangurinn sem af því hlýst eykur traust á leiðtoganum.

Hayes og Comer (2010) telja til ellefu hegðunareinkenni auðmýktar, einkenni sem tjá auðmýkt og eru þess valdandi að aðrir telja viðkomandi auðmjúka(n). Hinn auðmjúki leiðtogi:

  1. viðurkennir mistök og vanþekkingu
  2. ástundar góð samskipti á öllum þrepum fyrirtækis
  3. er gagnsær
  4. sýnir meðaumkun
  5. hefur húmor fyrir sjálfum sér
  6. er heiðarlegur
  7. er ekki í vörn
  8. er tiltæk(ur), auðvelt að nálgast hann
  9. ástundar virka hlustun
  10. hvetur til þátttöku
  11. virðir framlag annarra, bæði á formlegan og óformlegan hátt

Byggt á Hayes og Comer (2010). Start with Humility.

Start-with-Humility1-400x400