Reynsla skólastjóra af vinnustaðakönnun Reykjavíkurborgar – Erindi Þórönnu Rósu Ólafsdóttur á Bifröst 31. október

Á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk. mun Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastýra við Varmárskóla Mosfellsbæ halda erindi sem hún nefnir ,,Reynsla skólastjóra af vinnustaðakönnun Reykjavíkurborgar”. Rannsóknina vann Þóranna til MA-gráðu í uppeldis- og kennslufræði með áherslu á leiðtoga, nýsköpun og stjórnun og lýsir henni í þessum orðum:

Á Íslandi er krafa um framsækið skólastarf og samkvæmt íslenskum lögum ber skólastjórnendum grunnskóla að vinna að innra mati skólastarfs á markvissan og kerfisbundinn hátt. Viðfangsefni þessarar rannsóknar var að skoða reynslu skólastjóra af vinnustaðakönnun Reykjavíkurborgar og hvort þeir telji niðurstöður hennar nýtast til umbóta í skólastarfi. Rætt var við átta skólastjóra sem starfa hjá Reykjavíkurborg og höfðu nokkra reynslu af vinnustaðakönnunum, fjóra karlmenn og fjórar konur sem og einn mannauðsráðgjafa af Skóla- og frístundasviði. Rannsóknin var eigindleg með fyrirbærafræðilegri nálgun og var gögnum safnað með hálfopnum viðtölum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að flestir viðmælendur rannsóknarinnar telja að vinnustaðakönnun gagnist þeim vel sem tæki til umbóta í skólastarfi. Einnig kom fram ákveðin óánægja á meðal skólastjóranna, um að þeim fannst tengslin við yfirmenn hafa minnkað. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að auka þurfi samvinnu, eflingu og samtal á milli skólastjóra og yfirmanna á Skóla- og frístundasviði um framkvæmd könnunarinnar og hugsanlega hvernig spurningar í könnuninni eru orðaðar þannig að hún nýtist sem best. Við frekari greiningu gagna var stuðst við hugmyndafræði þjónandi forystu, skoðað hvort greina mætti hana í niðurstöðum rannsóknarinnar og hvort hún endurspeglist í vinnustaðakönnunum. Þjónandi forysta er talin gagnleg nálgun við stjórnun til þess að efla starfsfólk, auka starfsánægju og bæta stjórnunarhætti. Vinnustaðakönnun Reykjavíkurborgar beinist sérstak­lega að þessum þáttum. Í viðtölunum komu fram vísbendingar um þjónandi forystu í viðhorfum skólastjóra til verkefna sinna. Skóla- og frístundasvið hefur skýra stefnu og öfluga mannauðsdeild og fundar reglulega með skólastjórum.

Ráðstefna um þjónandi forystu á Bifröst 31. október 2014. Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Skráning á heimasíðu Þekkingarseturs um þjónandi forystu.

Thoranna
Þóranna Rósa Ólafsdóttir