Mikilvægi þjónandi forystu fyrir sköpunargleði – Erindi Birnu Drafnar Birgisdóttur á ráðstefnunni 31. október 2014

Á ráðstefnunni um þjónandi forystu á Bifröst 31. október nk. mun Birna Dröfn Birgisdóttir fjalla um mikilvægi þjónandi forystu fyrir sköpunargleði. Erindi Birnu Drafnar byggir á rannsókn sem er hluti af doktorsnámi hennar við Háskólann í Reykjavík. Hún lýsir erindinu svo í stuttu máli:

Sköpunargleði hefur verið rannsökuð í yfir 60 ár og er talin mikilvægur þáttur fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja. Skilgreining á sköpunargleði er bæði eitthvað nýtt og eitthvað nytsamlegt og rannsakendur lýsa henni sem hugsanamynstri sem hægt er að þjálfa með leiðsögn og æfingu. Ýmsir þættir geta haft áhrif á sköpunargleði og rannsóknir gefa til kynna að trú fólks á sinni eigin sköpun hefur mikil áhrif. Rannsóknir benda einnig til að yfirmenn geta haft mikil áhrif á hvort að starfsmenn nýti sköpunargleði sína í starfi. Þjónandi forysta er talin vera ein besta tegund forystu til að efla sköpunargleði þar sem leiðtoginn einbeitir sér að ná því besta fram hjá samstarfsfólki sínu. Samband sköpunargleði og þjónandi forystu hefur verið lítið rannsakað og er tilgangur rannsóknarinna að kanna þetta samband ásamt því að skoða áhrif annarra þátta í starfsumhverfinu. Þátttakendur voru starfsmenn á sjúkrahúsi (n=126) sem svörðu spurningalista um viðhorf til þjónandi forystu, sköpunargleði og starfsumhverfis. Niðurstöður sýna jákvætt marktækt samband á milli þjónandi forystu og sköpunargleði þar sem sambandið er sterkara þegar starfshlutverk hvers starfsmanns er skýrt. Niðurstöðurnar benda til þess að þjónandi forysta getur verið mikilvæg fyrir sköpunargleði starfsfólks og þar með árangur fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra.  

Birna Dröfn Birgisdóttir
Birna Dröfn Birgisdóttir

Birna Dröfn Birgisdóttir, er doktorsnemi við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Meðhöfundar og leiðbeinendur eru: Sigrún Gunnarsdóttir, Viðskiptasviði, Háskólans á Bifröst og Marina Candi, Viðskiptadeild, Háskólans í Reykjavík.

Ráðstefna á Bifröst 31. október 2014 á vegum Háskólans á Bifröst og Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Þjónandi forysta: Samskipti og samfélagsleg ábyrgð. Ráðstefnan hefst kl. 10 og lýkur kl. 16. Nánari upplýsingar og skráning er á heimasíðu Þjónandi forystu.