„Sannfæring“ sem samskiptaaðferð

Samskipti á vinnustað voru Robert Greenleaf hugleikin. Greenleaf hafði ímugust á hvers kyns þvingun eða blekkingum. Leiðtoginn skyldi vera heiðarlegur og einlægur og gæta þess að byggja ekki orðræðu sína og framkomu á stöðu sinni sem yfirmaður.

Greenleaf dró þó ekkert úr mikilvægi þess að leiðtoginn kæmi sínu til leiðar. Áhrif væru það sem gerði manneskju að leiðtoga og áhrifalaus getur réttnefndur leiðtogi því ekki verið. Greenleaf lagði hins vegar megináherslu á aðferðir leiðtogans við að koma sínu til leiðar.

Þá samskiptaaðferð sem Greenleaf mælti með kallaði hann „sannfæringu“ (e. persuasion). Ekki er þó átt við sannfæringarkraft einræðisherrans eða leiðtoga í sértrúarsöfnuði. Greenleaf lýsti sannfæringu sem heiðarlegu samtali á jafningjagrundvelli þar sem hvor um sig hvetti hinn til að fallast á skoðun sína. Sannfæringin gengur því í báðar áttir – leiðtoginn reynir vissulega að sannfæra viðmælanda sinn en er um leið reiðubúinn að láta sannfærast.

Greenleaf mælti sérstaklega með því að varpa fram sjónarmiðum og spurningum og láta viðmælandanum eftir að svara þeim fyrir sig. Þá getur verið auðvelt að freistast til að segja alltaf eigin skoðun og rökin fyrir henni og krefja viðmælandann um afstöðu til hennar. Aðferð Greenleafs var þó mun fremur að leggja til sjónarmið, jafnvel fleiri en eitt og treysta viðmælandanum til að komast að skynsamlegri niðurstöðu eða niðurstöðu sem virkaði fyrir hann í þeim aðstæðum sem hann var í.

Frá ráðstefnuninni um þjónandi forystu í júní 2013
Frá ráðstefnuninni um þjónandi forystu í júní 2013