Ábyrgðarskylda og siðferðilegt umboð leiðtogans – James W. Sipe og Don M. Frick

Nokkrir fræðimenn hafa notað hugtakið ábyrgðarskylda (e. accountability) til að lýsa athyglisverðum eiginleika þjónandi forystu. Í riti James W. Sipe og Don M. Frick um hinar sjö stoðir þjónandi forystu (The Seven Pillars of Servant Leadership, 2009) kemur fram að ein hinna sjö stoða sé siðferðilega traust umboð leiðtogans. Í því felst að leiðtoginn deilir völdum og ábyrgð, tekur ábyrgð og skapar vinnustaðabrag sem einkennist af ábyrgðarskyldu.

Hvað þarf að gera til þess að vinnustaðabragur einkennist af ábyrgðarskyldu?
Eins og Sipe og Frick benda á er þjónandi forysta ferðalag fyrir hina leitandi en ekki leiðbeiningabæklingur fyrir þá sem vilja láta segja sér fyrir verkum. Þeir telja þó til nokkur grunnatriði og dæmi sem hinn þjónandi leiðtogi getur byggt á í viðleitni sinni til að skapa vinnustaðabrag þar sem ábyrgðarskylda er rík.
Vinnustaðurinn þarf fyrst af öllu að setja sér siðferðilegar grunnreglur áður en almennar reglur um t.d. tilhögun verka eru settar. Því næst þarf að móta stefnu á hinum ýmsu sviðum sem byggir á grunnreglunum og kemur þeim til framkvæmda. Samkvæmt Sipe og Frick felst þarf fyrirtækið enn fremur að vera lærdómsfyrirtæki til þess að ábyrgðarskylda sé áberandi einkenni á starfseminni. Til dæmis má gæta þess að allir hafi aðgang að viðeigandi og nauðsynlegri þekkingu, ekki bara þeirri sem skilar beinlínis árangri heldur einnig þekkingu sem styður við gagnkvæma virðingu og siðferðileg gildi.

Sem dæmi má nefna TDIndustries, sem framleiðir hita- og loftræstibúnað og afgreiðir slíkan búnað þar sem hann hefur verið settur upp, en fyrirtækið hefur ástundað þjónandi forystu um árabil og naut áður ráðgjafar sjálfs Roberts Greenleaf. Stjórnendur hjá TDIndustries, sem á höfuðstöðvar í Texas, tóku ákvörðun um að starfsfólk fengi ókeypis spænskukennslu. Að vísu liðkaði það fyrir viðskiptum við spænskumælandi viðskiptavini en að sögn áhrifamanna innan fyrirtækisins var ákvörðunin ekki síst tekin vegna þess að hún þótti „rétt breytni“ og í samræmi við gildi fyrirtækisins. Ákvörðun um ókeypis spænskunámskeið var leið til að sýna spænskumælandi viðskiptavinum virðingu, sýna þeim að fyrirtækið væri tilbúið að leggja eitthvað á sig til að mæta þeim á heimavelli.

Auk siðferðisreglnanna, stefnunnar og lærdómsins telja Sipe og Frick að vinnustaðabragur sem einkennist af ábyrgðarskyldu þurfi líka að eiga sínar sögur, dæmi- og reynslusögur úr sögu fyrirtækisins sem endurspegla grunngildin og hægt er að byggja á inn í framtíðina. Einnig þurfi hver vinnustaður að fá sinn fögnuð. Robert Greenleaf, upphafsmaður þjónandi forystu á okkar tímum, var innhverfur persónuleiki en þrátt fyrir það lagði hann þónokkuð á sig til að fagna fólki, árangri og hátíðum þar sem hann vann. Ýmist sá hann um það sjálfur á óformlegan hátt eða fékk einhvern tilkippilegan starfsmann til að skipuleggja veislur, t.d. í tilefni stórhátíða. Flugfélagið Southwest Airlines er meðal þekktra þjónandi forystu fyrirtækja en það hefur skipulagt viðburði undir merkjum kærleiksgildisins („Luv“) sem er mikilvægur þáttur í starfsmannastefnu félagsins. Árlega heldur félagið fögnuð kenndan við „Hetjur hjartans“ en Southwest Airlines heldur hjartatákninu mjög mikið á lofti. Í þessum árlegu hátíðahöldum eru ýmsar óþekktar hversdagshetjur úr hinum og þessum kimum og krókum starfseminnar mærðar.

Til þess að skapa brag þar sem ábyrgðarskylda ríkir, þarf siðferðileg grunngildi sem verða undirstaða allrar starfseminnar, sögur sem styðja grunngildin og stefnu sem endurspeglar þau, vilja og sífelld tækifæri til að læra … og gleði.

Heimild: James W. Sipe og Don M. Frick: Seven Pillars of Servant Leadership: Practicing the Wisdom of Leading by Serving. Paulist Press, 2009.

James W. Sipe er sálfræðingur og ráðgjafi á sviði forystu og stjórnunar. Don M. Frick er doktor í forystu- og skipulagsfræðum og starfar m.a. við ráðgjöf á því sviði. Frick vann við Greenleaf-stofnunina í Bandaríkjunum í fimm ár og skrifaði m.a. ævisögu Roberts Greenleaf.

seven_pillars_of_servant_leadership