Tíu einkenni þjónandi leiðtoga samkvæmt Larry Spears

Robert K. Greenleaf skrifaði grundvallarrit sitt um þjónandi forystu, The Servant as Leader, árið 1970. Næstum þrír áratugir liðu þar til fyrstu tilraunir voru gerðar til að greina meginþætti hugmyndafræðinnar um þjónandi forystu eða lýsa helstu hegðunareinkennum þjónandi leiðtoga. Nú eru hugtakalistar og líkön um þjónandi forystu komin vel á annan tug og í því ljósi er áhugavert að líta til fyrstu tilraunarinnar til að kerfisbinda þjónandi forystu. Heiðurinn af henni á Larry C. Spears, sem var forstöðumaður Greenleaf-setursins (The Robert K. Greenleaf Center for Servant Leadership) á árunum 1990-2007 en stofnaði árið 2008 eigið setur, Larry C. Spears Center for Servant Leadership og hefur verið forstöðumaður þess upp frá því. Árið 1998 gaf Greenleaf-setrið út bókina The Power of Servant Leadership í ritstjórn Spears en hún hefur að geyma átta ritgerðir eftir Robert Greenleaf. Í inngangi bókarinnar lýsir Spears þeim tíu einkennum þjónandi leiðtoga sem hann telur mikilvægasta og byggir niðurstöðuna á vandlegum lestri ritgerða Greenleafs.

1. Hlustun. Hinn þjónandi leiðtogi hlustar af athygli á það sem sagt er (og það sem ekki er sagt!). Hlustun nær líka til þess að átta sig á sinni eigin innri rödd og hverju eigin líkami, hugur og sál vilja koma til skila. Hlustun er algjörlega nauðsynleg til þess að verða þjónandi leiðtogi og vaxa sem slíkur.

2. Hluttekning. Hinn þjónandi leiðtogi leitast við að skilja aðra og sýna meðlíðan. Hann hafnar ekki fólki þótt hann hann neiti að samþykkja hegðun þess eða frammistöðu. Þjónandi leiðtogi trúir á hið góða í fólki. Þjónandi leiðtogar ná mestum árangri nái þeir leikni í að hlusta af hluttekningu.

3. Græðing. Einn helsti styrkleiki þjónandi forystu er möguleikinn á að græða eigið sjálf og samband sitt og samskipti við aðra. Hinn þjónandi leiðtogi græðir andleg sár, t.d. bugaðan anda og sárindi, bæði eigin sár og annarra. Algengt er að fólk beri slík sár og leiðtogar eru í þeirri stöðu að þeir hafa tækifæri til að láta að sér kveða að þessu leyti. Græðing styrkir fólk og bætir.

4. Vitund. Vitund felst í að átta sig almennt á umhverfinu, en þó ekki síst sjálfri/sjálfum sér. Vitund eykur skilning á valdi, gildum og siðferði. Með aukinni vitund áttar leiðtoginn sig betur á heildarsamhenginu, athygli hans eykst og næmni fyrir umhverfinu.

5. Sannfæring. Leiðtoginn reiðir sig ekki á stöðuvald sitt, heldur kemur hann sínu fyrst og fremst til leiðar með „sannfæringu“. Hann reynir að sannfæra aðra um afstöðu sína frekar en að þvinga fram hlýðni. Í þessu atriði opinberast einna best munurinn á þjónandi forystu og hinum hefðbundna valdboðshugsunarhætti. Þjónandi leiðtogi er leikinn í að finna samhljóm innan starfshóps.

6. Hugmyndaafl. Þjónandi leiðtogar rækta hæfileikann til að dreyma stóra drauma. Hæfileikinn til að nálgast vandamál og viðfangsefni með hugmyndaaflinu felur í sér að hugsa lengra en raunveruleiki hversdagsins nær, hugsa til lengri tíma og á breiðari grunni.

7. Framsýni. Framsýnin er náskyld hugmyndaaflinu, en er hæfileikinn til að sjá fyrir líklega framvindu atburða og aðstæðna. Framsýni er erfitt að skilgreina en þekkist þegar hún er til staðar. Framsýni byggir á reynslu af liðnum atburðum, þeim veruleika sem blasir við og mati á líklegum afleiðingum ákvörðunar á framtíðina. Framsýni byggir einnig á innsæi okkar.

8. Ráðsmennska. Ráðsmennska felur í sér verkefni „ráðsmannsins“, að gæta einhvers fyrir einhvern annan, þ.e. gæta fyrirtækis eða stofnunar fyrir samfélagið. Stjórnendur, stjórn og starfsfólk stofnunar hafa öll mikilvægu hlutverki að gegna við að annast stofnunina með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Í ráðsmennsku felst skuldbinding við að þjóna þörfum annarra og að beita hreinskilni og sannfæringu frekar en stjórnun.

9. Ræktarsemi við framfarir fólks. Þjónandi leiðtogar trúa því að fólk hafi gildi í sjálfu sér sem sé óháð framlagi þess sem starfsfólk. Þjónandi leiðtogar leggja því rækt við framfarir og þroska hvers einstaklings í þeim hópi sem hann veitir forystu. Þjónandi leiðtogi áttar sig á þeirri miklu ábyrgð sem hann ber á að beita öllum ráðum til að styðja einstaklingsþroska samstarfsmanna og framfarir þeirra í starfi. Í þessu getur m.a. falist að sjá til þess að til reiðu sé fjármagn til starfsmenntunar, að sýna áhuga á hugmyndum og tillögum allra, hvetja til þátttöku starfsmanna í ákvörðunum og veita þeim sem sagt hefur verið upp störfum virka aðstoð í atvinnuleit.

10. Samfélagsmyndun. Þjónandi leiðtogi vill bæta upp það sem tapaðist þegar stórar stofnanir tóku við staðbundnum samfélögum sem mótandi afl í tilveru fólks. Hann reynir því að finna leiðir til að mynda raunverulegt samfélag meðal samstarfsfólks.

Spears tók fram að listinn væri ekki tæmandi yfir meginþætti þjónandi forystu en þjónaði hins vegar því hlutverki að koma inntaki hugmyndafræðinnar til skila til þeirra sem eru reiðubúnir að takast á við þá áskorun sem í henni felst.

Larry and PSL, 504KB

Larry Spears / http://www.spearscenter.org

Heimildir: 

The Power of Servant Leadership. Safn ritgerða eftir Robert Greenleaf. Ritstj. Larry C. Spears.

Larry C. Spears (2010): „Character and Servant Leadership: Ten Characteristics of Effective, Caring Leaders.“ The Journal of Virtues & Leadership, 1. árg., bls. 25-30. School of Global Leadership & Entrepreneurship, Regent-háskóla, Virginíu. http://www.regent.edu/acad/global/publications/jvl/vol1_iss1/Spears_Final.pdf

The Spears Center for Servant-Leadership: „Larry C. Spears, President & CEO“, http://www.spearscenter.org/about-larry.